Nokkrir liðir standa þó í stað
Stjórn Snerpu hefur ákveðið að þann 1. febrúar nk. taki gildi ný gjaldskrá fyrir þjónustu félagsins þar sem flestir þjónustuliðir hækka um 8,5%. Þetta er í fyrsta skipti sem gripið er til slíkrar hækkunar en ástæðan er fyrst og fremst margvíslegar kostnaðarhækkanir síðastliðna mánuði. Í gegnum tíðina hefur gjaldskrá vegna netþjónustu lækkað nokkuð, sérstaklega hvað varðar stærri tengingar og sítengingar en eins og áður segir er þetta í fyrsta skipti sem til hækkunar kemur.Nokkrir liðir munu þó ekki hækka. Má þar nefna gjöld fyrir innhringiþjónustu, þ.e. tengingar um mótald og ISDN en þó mun verða tekið upp seðilgjald á allar innheimtur sem gerðar eru með greiðsluseðli, kr. 250,- Jafnframt er vakin sérstök athygli á því að hægt er að spara sér seðilgjaldið með því að greiða netáskrift með greiðslukorti. Þá mun umframgjald fyrir sítengingar einnig verða óbreytt, svo og útseld vinna við þjónustu.
Þrátt fyrir ofangreinda hækkun mun verð á helstu þjónustu áfram verða vel samkeppnisfært við helstu keppinauta. Má þar nefna verð á ADSL-þjónustu, allt að 1536 kbps hraða m. 1 GB niðurhali, frírri innanlandsumferð og fastri IP-tölu sem verður á kr. 3.300,-
Nánari upplýsingar um verð á helstu þjónustum er að finna á http://www.snerpa.is/notendur/gjaldskra.phtml