Það er venja að litið sé til baka um farinn veg um áramót og er þessu fréttakorni ætlað að gera grein fyrir helstu viðburðum ársins í rekstrinum.
Á árinu 2001 fjölgaði virkum netföngum í almennri netþjónustu um rúm 20% en auk þess bættist við töluverður notendafjöldi í skipaþjónustunni INmobil. Einnig varð velta ársins aðeins meiri en væntingar stóðu til og ýmsar framkvæmdir í gangi, m.a. stækkun á Internetsambandi úr 2 Mbit/s í 12 Mbit/s og bygging nýs vélasals.
Með nýjum ATM-búnaði sem fjárfest var í skömmu fyrir síðustu áramót opnuðust nýir valkostir, m.a. sá að í upphafi ársins varð tæknilega hægt að taka við m.a. heillri sjónvarpsdagskrá og hóf Snerpa jafnframt umsjón með útsendingum Skjás eins á Ísafirði. Aðferðin sem notuð er við flutning sendingarinnar er svokölluð MPEG-2 þjöppun sem gerir að verkum að útsendingarmerkið sem venjulega tekur 45 Mbit/s pláss í flutningi er þjappað niður í um 4 Mbit/s eða í innan við tíunda part. Þetta hafði ekki verið reynt hér á landi áður og bar útsendingin blæ af því fyrstu vikurnar á meðan verið var að fullprófa og fínstilla hugbúnað því að oft fylgdi hljóð ekki í takt við mynd en rættist síðan úr og hafa Ísfirðingar verið meðal fárra staða á landsbyggðinni sem hafa notið útsendinga Skjás eins fyrir vikið.Þrátt fyrir að í nóvember 2000 hefði netsamband verið stækkað úr 512 kbit/s í 2 Mbit/s var í byrjun árs farið að huga að samningagerð um enn stærri tengingu við Internetið og var gengið frá nýjum samningi við Landssímann í maí um bæði útlandasamband og stækkun á línu á Internetið í 10 Mbit/s og ákveðið var jafnframt að eldra 2 Mbit/s sambandinu til Títan yrði jafnframt haldið opnu áfram þannig að Snerpa er nú með aðgang að tveimur útlandasamböndum, samtals 12 Mbit/s sem ætti að duga eitthvað áfram, hugsanlega út næsta ár.
Í lok apríl dró síðan til tíðinda þegar Snerpa og Vestmark tilkynntu um sameiningu fyrirtækjanna. Upp kom ágreiningur milli aðila og gekk svo langt að Snerpa rifti sameiningunni. Vestmark hefur nú stefnt riftingunni fyrir dómstóla.
Í maí kynntu Snerpa og Radiomiðun nýja þjónustu sem er ætluð togaraflotanum og stærri bátum. Þjónustan nefnist INmobil og er rekin á hugbúnaði sem Snerpa hefur unnið við að þróa sl. tvö ár og hlaut m.a. 5 milljón króna styrk frá Rannsóknarráði Íslands til að vinna að verkefninu. Verkefnið gengur vel og í árslok voru rúm tvö hundruð netföng sjómanna á hafi úti komin í notkun. Þá höfðu Snerpa og Radiomiðun einnig tekið að sér um áramótin síðustu að reka MarStar kerfi Netverks sem Landssíminn hafði áður séð um og er það jafnframt í rekstri áfram.
Í júní var síðan sett af stað ADSL-þjónusta hjá Snerpu um leið og Landssíminn fór að bjóða ADSL-tengingar á Ísafirði. Opnuð var til að byrja með 2 Mbit/s rás inn á ADSL-búnað Landssímans í Múlastöð en samningur við Símann um þjónustuna býður upp á allt að 10 Mbit/s rás sem tekin verður í notkun nú strax eftir áramót því notendum ADSL-þjónustu Snerpu hefur fjölgað verulega undanfarið enda verðið mjög samkeppnisfært.
Ákveðið var að selja nýtt hlutafé í fyrirtækinu á grundvelli verðmats sem Íslensk verðbréf hf. gerði fyrir Snerpu. Útboðið var lokað og var nokkrum völdum aðilum, þ.á.m. bæði Landssíma Íslands hf. og Byggðastofnun boðið að kaupa hluta af aukningunni. Landsíminn sýndi útboðinu töluverðan áhuga og fékk m.a. til skoðunar frekari gögn um reksturinn en gat ekki tekið ákvörðun áður en útboðsfrestur rann út. Byggðastofnun sýndi einnig áhuga og eftir ítarlega skoðun á fyrirtækinu keypti Byggðastofnun sem svarar um 21% eignaraðild en þrír aðrir keyptu um 7%. Eigendur Snerpu eru nú sex talsins og eiga nú sæti í stjórn þeir Jón Arnar Gestsson, Óðinn Gestsson og Elías Oddsson.
Í júní voru einnig teknar í notkun nýjar IP-tölur samfara nýju tengingunni við Landssímann. Með þessum IP-tölum er hægt að tengja rúmlega 4000 samtímanotendur og eru þær einnig þeim kostum búnar að þær eru í flokki sem kallast ,,Provider Independent" og eru þær fyrstu af þessari tegund sem er úthlutað af alþjóðastofnuninni RIPE til íslenskrar Internetþjónustu. Nýju tölurnar hafa ýmsa tæknilega kosti í för með sér sem ekki verður þó farið nánar út í hér.
Sumarið var m.a. notað til að setja af stað sk. stefnumótunarvinnu til að skerpa áherslur og móta framtíðarsýn fyrirtækisins. Til þess var ráðinn sérstakur rekstrarráðgjafi. Þessi vinna var nokkuð umfangsmikil og er þegar farið að vinna eftir þeim línum sem lagðar voru. Árangurinn er þegar að koma í ljós með betri og skilvirkari þjónustu m.ö.o. að verða enn betri í því sem við erum best í.
Fjölmargar nýjar tölvuveirur skutu upp kollinum. Code Red tölvuormurinn og frændi hans Sircam birtust og fór sá síðarnefndi að dreifa m.a. bankayfirlitum og fundargerðum fram og til baka í tölvupósti. Í framhaldi af því var ákveðið að stíga veiruvarnaskrefið til fulls og koma upp póstkerfi sem gæti hreinsað allan póst en fram til þessa hefur Snerpa einungis haft búnað til að skanna póst og aðvara notendur þegar slíkt fannst og sérsmíða varð hreinsunartól fyrir hættulegustu tegundirnar. Vinnu við nýtt ,,veiruþvottahús" lauk skömmu fyrir jól og er það nú komið í gagnið. Ein nýjungin er að nú er einnig hægt að þvo póst sem fer áfram á önnur pósthús þannnig að stærri fyrirtæki sem hafa eigin netpósthús eru nú einnig varin gegn tölvuveirum.
Snerpa endurnýjaði framleiðslu- og endursölusamning við Kaspersky Labs um veiruvarnaforritið Kaspersky Antivirus í haust en áður hafði forritið verið selt undir vörumerkinu AVP. Í kjölfarið sló Snerpa öll fyrri sölumet sín hjá Kaspersky og seldi mikinn fjölda veiruvarnaforrita og er forritið nú fáanlegt í helstu tölvuvöruverslunum um allt land.
Í október var opnað nýtt 2 Mbit/s samband til Hólmavíkur þar sem Snerpa setti upp örbylgjunet en fyrr í sumar voru sett upp slík net í Bolungarvík og á Suðureyri. Þessi samskiptaaðferð býður upp á allt að 11 Mbit/s samskiptahraða innanbæjar en afköst á Internetið eru tryggð með allt að 512 kbit/s afköstum. Örbylgjunet eru góður valkostur fyrir sítengingu og sambærileg við ADSL-tengingar.
Í nóvember var boðin út smíði á nýbyggingu sérstaks steypts vélasals sem uppfylla á ströngustu kröfur um brunavarnir og rekstraröryggi netþjónustunnar. Byrjað var á byggingu vélasalsins í nóvember og vegna einstakrar heppni með veður tókst að ljúka byggingunni og öllum frágangi fyrir jól. Nú tekur við flutningur búnaðar úr núverandi vélasal yfir í þann nýja en búast má við að það taki nokkurn tíma að fullklára það verk þar sem færa þarf umfangsmiklar tengingar og ljósleiðarasambönd.
Við óskum viðskiptavinum okkar gleðilegs nýs árs og þökkum viðskiptin á nýliðnu ári.