Hafðu samband: 520 4000 snerpa@snerpa.is
Björn Davíðsson Björn Davíðsson | 2. desember 2013

Netöryggi

Í tilefni af fréttum helgarinnar um innbrot á vefþjón hjá Vodafone vill Snerpa árétta við notendur sína að ekkert tölvukerfi er öruggara en veikasti hlekkurinn. Til að tryggja eigið öryggi er nauðsynlegt að notendur sýni almenna varúð og t.d. noti ekki sama lykilorð á mörgum stöðum. Sé það samt sem áður gert, er þess ríkari ástæða að skipt sé um það reglulega.

Í umræðum í kjölfar atviksins hjá Vodafone hafa vaknað spurningar um hvort það sem úrskeiðis var geti hugsanlega verið eins hjá öðrum. Snerpa leggur mikla áherslu á netöryggi, ekki síst í ljósi þess að gerðar eru hátt í hundrað tilraunir á dag til að reyna netvarnir Snerpu. Reynsla Snerpu er sú að langoftast er ráðist á algengustu vefumsjónarkerfin sem dreift er frítt, enda ef þau eru ekki uppfærð reglulega, myndast þekktir veikleikar þar sem kóða þeirra er dreift á netinu og hægt að rannsaka hann í þaula.

Á vefþjónum Snerpu og annarra keyra einnig önnur vefumsjónarkerfi sem eru á ábyrgð þess sem setur þau upp, sem er yfirleitt á vegum kaupanda viðkomandi vefsvæðis. Í þeim tilfellum er mikilvægt að halda þeim við reglulega og ekki er nóg að þau virki ef í þeim eru til staðar þekktir öryggisgallar.

Snerpa hefur frá árinu 2002 viðhaft og farið eftir sérstökum reglum um annála (log-skrár) sem fyrirtækið setti sér sjálft, frá því töluvert áður en núgildandi fjarskiptalög tóku gildi. Þessar reglur (http://snerpa.is/thjonusta/reglur/) hafa staðist tímans tönn og eru í samræmi við núgildandi ákvæði fjarskiptalaga. Einnig hefur Snerpa sett sér öryggisstefnu (http://snerpa.is/oryggi_net/) sem notendur eru hvattir til að kynna sér. Einnig hefur Snerpa í gegn um tíðina sett inn á vef ýmsan fróðleik (http://snerpa.is/allt_hitt/frodleikur/) um venjur sem gott er að temja sér auk þess sem skal varast.


Til baka