Samið við Snerpu um dreifingu efnis á Ísafirði.
Tölvu-og netþjónustan Snerpa og SkjáVarp hf. hafa gert með sér samstarfssamning um að Snerpa verði umboðs- og þjónustuaðili SkjáVarps á Ísafirði. Snerpa mun sjá um rekstur á tækjabúnaði SkjáVarps og móttöku sjónvarpsefnis á stafrænu formi um ATM-samband. Snerpa mun einnig annast markaðs- og sölustörf fyrir SkjáVarp á Ísafirði.
Með þessum samningi hyggjast fyrirtækin auka þjónustu sína enn frekar og aukið verður verulega við búnað SkjáVarps. Sjónvarpsstöðin Skjár Einn verður jafnframt send út á rás SkjáVarps á Ísafirði og áformað er að þær útsendingar hefjist í nóvember.
SkjáVarp hefur nú lokið uppsetningu á tuttugu og tveimur sjónvarpssendum í öllum landsfjórðungum og er uppsetningu á Faxaflóasvæðinu brátt lokið. SkjáVarp leitast við að eiga sem best samstarf við heimamenn á hverju útsendingarsvæði og er samstarfið við Snerpu á Ísafirði liður í þeirri stefnu.
Veruleg aukning hefur orðið á starfsemi SkjáVarps í kjölfar kaupa Skjás Eins á helmingshlut í fyrirtækinu. Viðskipti hafa aukist og markaðsstarf verið eflt. Dagskrá Skjás Eins er nú send út á um þriðjungi dreifikerfis SkjáVarps og unnið er að frekari útbreiðslu Skjás Eins um landið.
Um SkjáVarp:
SkjáVarp einbeitir sér að miðlun staðbundinna upplýsinga í öllum landsfjórðungum. Upplýsingunum er ýmist miðlað með sjónvarpssendum inn á heimili og stofnanir í einstökum byggðarlögum, eða með lokuðum upplýsingakerfum um sýningasvæði, ráðstefnur, einstök fyrirtæki og stofnanir.
Um Snerpu:
Snerpa er alhliða tölvu- og netþjónusta á Ísafirði sem annast flest er viðkemur tölvum, gagnaflutningum og Internetþjónustu. Fastir starfsmenn Snerpu eru nú tólf talsins, þar af tveir í Reykjavík.