Hafðu samband: 520 4000 snerpa@snerpa.is
Snerpa Snerpa | 3. maí 2004

Snerpa tekur í notkun eigið netsamband milli Ísafjarðar og Flateyrar

Í dag kl. 15 opnaði Halldór Halldórsson, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ, formlega nýtt og stærra netsamband á milli Ísafjarðar og Flateyrar. Þetta samband tengir sítengda netnotendur á Flateyri við Internetið. Sambandið var áður tekið um leigulínu frá Landssímanum en vegna aukinnar notkunar var ákveðið að stækka tenginguna. Hagkvæmast reyndist að setja upp eigin örbylgjuleið um Þverfjall og Holt. Leiðin sem er farin er 22 km að lengd og er notaður búnaður frá Icecom ehf. í Garðabæ. Sambandið er hægt að stækka eftir þörfum án þess að skipta um loftnet allt upp í 22 Mbps afköst.

Þetta er þriðji áfanginn í uppbyggingu Snerpu á eigin langlínuleiðum en fyrr á árinu var sett upp samband til Hnífsdals. Einnig er fyrir samband á milli Hólmavíkur og Drangsness sem var sett upp á síðasta ári. Fyrirhugað er að bæta við tveimur til þremur samböndum af þessarri gerð á næstunni í tengslum við frekari uppbyggingu á örbylgjuneti Snerpu.

Snerpa rekur nú örbylgjunet á Þingeyri, Flateyri, Suðureyri, Bolungarvík, Hnífsdal, Ísafirði, Súðavík, Hólmavík, Drangsnesi og Þórshöfn á Langanesi. Á næstunni verður opnaður aðgangur að örbylgjunetinu á Bíldudal og Reykhólum.


Til baka