Grundvallarregla Landvætta:

Til þess að verða Landvættur þarf að ljúka öllum atburðum á innan við 12 mánuðum.  Hins vegar þarf það ekki að vera innan hvers almanaksárs og því er hægt að byrja á hvaða grein sem er.  Það er því ágætis ráð að byrja á þeirri grein sem viðkomandi telur að hann sé lakastur í, því að þá gefast í raun tveir möguleikar á að ljúka þeim viðburði.

 

BIÐJUM FÓLK AÐ GÆTA FYLLST ÖRYGGIS , TAKA EKKI ÓÞARFA ÁHÆTTU OG NJÓTA ÞÁTTTÖKUNNAR

 

                                                                Tímabundnar reglubreytingar:

Maí 2024:  Vegna jarðhræringa og tíðra eldsumbrota á Reykjanesskaga verður ekki hægt að halda Bláalónsþrautina 2024 á sama hátt og undanfarin ár.   HFR hefur verið að leita leiða til að halda sambærilegan viðburð á svipuðum tíma en ekki enn fengið leyfi frá viðeigandi sveitarfélögum.  Þó er það ekki útilokað að af slíku verði og viljum við mæla með að verðandi Landvættir fylgist með og taki þátt þar ef af verður.  Hins vegar verður einnig samþykkt frá og með nú og þar til önnur ákvörðun liggur fyrir að hægt er að hjóla amk 60km vegalengd á eigin vegum á meðan þetta óvissuástand ríkir.  Hvetjum til þátttöku í skipulögðum hjólreiðaviðburðum með þessa lágmarks vegalengd og að senda okkur staðfestingu á þáttöku með tilvísun í hvaða keppnisviðburð var um að ræða.  En einnig er í boði að ljúka hjólreiðahluta á eigin vegum og afrekið staðfest rafrænt eða með vottun og það sent til okkar um leið og upplýsingar um árangur í öðrum viðburðum eru sendar inn.  

Við viljum benda á að þátttaka í 55km vegalengd í Vesturgötuhjólreiðunum er samþykkt sem fullgildur hjólreiðahluti Landvætta þetta sumarið.  

 

Júlí 2023:  Urriðavatnssundinu 2023 hefur verið aflýst vegna þess að vatnið er of kalt.  Fyrir verðandi Landvætti eru tveir möguleikar í boði. Að synda eftir ár, semsagt undanþága er gerð frá 12 mánaða reglunni og þátttaka í sundinu 2024 gildir en einnig er hægt að synda sambærilega vegalengd á eigin vegum fyrir lok september 2023 og staðfesta rafrænt svo sem með strava

 

 

                                                                     Útskýringar:

 Landvætturin vill taka það fram að hann kemur ekki  að mótahaldi  viðburðanna.  Það er alfarið í höndum mótshaldara hvers viðburðar að setja reglur, til dæmis um tímamörk og fleira.  Landvætturin leitar ávalt staðfestingar hjá mótshöldurum  hvort viðkomandi hafi lokið keppni eða ekki.  Það er keppikefli allra sem halda  viðburðina að fólk fari burt með bros á vör og ánægjulegar minningar en jafnframt er rík áhersla á öryggi og velferð þátttakenda.  Hér á landi getur til dæmis veður sett strik í reikninginn og stundum eru því gerðar ákveðnar breytingar á hefðbundum leiðum eða vegalengdum.  Það er alltaf í höndum mótshaldara hvers  að skilgreina hvort að viðkomandi hafi lokið keppni eða ekki.  Þetta er samkv. þeirri hefð sem skapast hefur í svipuðum áskorunum eins og til dæmis "en svensk klassiker" í Svíþjóð.

 

Vegna mikils og um leið gleðilegs áhuga á því að verða félagi í Landvættunum og því að fjöldatakmarkanir einstakra atburða gera þetta nokkuð snúið hefur verið ákveðið að f.o.m. 2016 verði Þorvaldsdalsskokkið fullgildur liður í Landvættinum. Þetta þýðir að hlaupamöguleikarnir eru tveir (sjá thorvaldsdalur.umse.is) 

 Skráning fer fram hjá hverjum atburði fyrir sig.

 

SKRÁNING Í FÉAGIÐ, bæði aðal-og aukafélagar:

Þegar viðkomandi hefur náð að ljúka öllum greinunum sendir hann  tölvupóst á landvaetturin@gmail.com. Þar þarf að koma fram nafn, kennitala, tölvupóstur og heimilisfang  sem og tími í hverri grein. Landvætturin fer yfir úrslit og staðfestir að viðkomandi hafi skilað sér í mark í öllum viðburðunum og sé þannig fullgildur Landvættur. Í kjölfarið er send staðfesting  í formi viðurkenningarskjals og merki félagsins sem hægt er að sauma á æfingagalla.  Á viðurkenningarskjalinu er staðfesting á afrekinu , félagsnúmer og einnig samtals tími úr öllum fjórum greinunum.

 

 Frá og með 2016 hefur verið hægt að verða aukafélagi í Fjölþrautafélaginu Landvættir. 

LANGVÆTTUR:  Sömu þrautir og í Landvættinum en tímamörkin allt að 48 mánuðir (4 ár). Sama tilkynningaform og í Landvættinum, sjá hér að ofan. 

 FJÓRÐUNGUR:  Sund,hlaup,skíðaganga og hjólreiðar eins og í Landvættinum og þarf einnig að klára á innan við 12 mánuðum en  innan hvers hinna fornu landsfjórðunga. Kröfurnar eru mun minni en að lágmarki eru þær eftirfarandi. Sund:400 metrar.  Hlaup:2,5 km.  Skíðaganga:5,0 km.  Hjólreiðar: 10,0 km.(t.d. þríþraut plús skíðaganga)

Þarf að vera viðurkenndur atburður og skal tilkynna sig á landvaetturin@gmail.com þegar Fjórðungi er lokið og láta tíma úr þrautunum og dagsetningar fylgja með.

Sá sem afrekar alla fjórðungana á innan við 12 mánuðum fær titilinn Heiðursfjórðungur.

Mörk landsfjórðunganna:Vestfirðingafjórðungur frá Botnsá í Hvalfirði  að Hrútafjaðará. Norðlendingafjórðungur þaðan  að Skoruvíkurbjargi á Langanesi, Austfirðingafjórðungur þaðan að Lómagnúp, Sunnlendingafjórðungur þaðan  að Botnsá í Hvalfirði.  

 

UNGVÆTTUR:Ungvætturinn er fyrir 12-18 ára. Sömu reglur gilda og í Landvættinum en kröfurnar eru minni.

Lágmarkskröfur eru:  

Skíðaganga: 12,5 km. í Fossavatnsgöngunni.

Hjól: 25 km. í Blue Lagoon Challenge

Sund: 500 m. í Urriðavatnssundinu.

Hlaup:   13 km. í Jökulsárhlaupinu eða 8 km. í Þorvaldsdalsskokkinu.

Skráning er á sama hátt og Landvættinum nema í Blue Lagoon Challenge þá er hún hjá gjaldkera Hjólreiðafélags Reykjavíkur, sjá nánar á fésbókarsíðu Landvættanna.

 

 

HÁLFVÆTTUR:Sömu reglur gilda og í Landvættinum og vegalengdakröfur eru að lágmarki helmingur af Landvættavegalengd. Ef að einhverjar þrautanna eru teknar í fullri lengd  fær viðkomandi  * í félagatalinu

Þetta snýst um að klára en ekki um tíma og því er möguleiki að að hafa vegalengdirnar mismunandi en að lágmarki helming af Landvættavegalengd.

Skráning er á sama hátt og í Ungvættinum.

 

Hafið gleði og gaman af.